Viðskipti innlent

Ís­land megi ekki verða á milli í stríði ESB og Banda­ríkjanna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra.
Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Atvinnuvegaráðherra segir tolla Trump geta haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi. Mikilvægt sé að Ísland festist ekki milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins í tollastríði. 

Útflutningur á vörum til Bandaríkjanna frá Íslandi nam tugum milljarða á síðasta ári. Tíu prósent tollur gæti haft mikil áhrif, til að mynda í sjávarútvegi, en stór hluti útflutnings til Bandaríkjanna eru sjávarútvegsvörur.

Áhrif tollanna eru nú til skoðunar hjá nokkrum ráðuneytum. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, segir mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf.

„Við erum að rýna þessar tölur. Hvort, og þá hvernig, áhrif þetta hefur á sjávarútveginn okkar. Við erum mjög stór í útflutningi til Bandaríkjanna. Svo er ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum á ferðaþjónustu. Langstærsti hópur ferðamanna á Íslandi er frá Bandaríkjunum. Ef þessar aðgerðir Trumps raungerast og fara að hafa mjög neikvæð áhrif á efnahag heimila þar í landi, þá er það eðlileg ályktun að draga að það muni hafa áhrif á vilja og getu Bandaríkjamanna til að ferðast. Þannig í stóru myndinni er ástæða til að hafa áhyggjur,“ segir Hanna Katrín. 

Það verði að horfa til þess að Ísland og Bandaríkin séu enn bandalagsþjóðir.

„Við höfum allan tímann frá því þetta tal um tollastríð hófst, sagt að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að lenda ekki á milli í einhverskonar stríði milli ESB og Bandaríkjanna. Það er enn þá eitt gríðarlega stórt áhersluatriði hjá okkur. Að samband okkar við bæði ESB og Bandaríkin sé gott. Þannig það eru margir boltar á lofti hjá okkur líkt og öllum öðrum. En hvenær við stígum niður og segjum eitthvað annað, það verður að ráðast af stórum hagsmunum,“ segir Hanna Katrín. 

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×