Erdogan segir að innrás í Afrin gæti hafist þá og þegar.
Kúrdarnir sem stjórna Afrin kallast YPG og eru þeir álitnir vera hryðjuverkahópur í Tyrklandi og nátengdur Verkamannaflokki Kúrda. Bandaríkin hafa þó staðið við bakið á YPG og bandamönnum þeirra, sem mynda regnhlífarsamtökin SDF eða Syrian Democratic Forces og stjórna stórum hluta Sýrlands, í baráttu þeirra gegn Íslamska ríkinu.
Árið 2016 gerðu Tyrkir innrás í Sýrland til að koma í veg fyrir að sýrlenskir Kúrdar næðu tökum á gervöllum landamærum Sýrlands og Tyrklands og skiptu þeir yfirráðasvæði Kúrda í tvennt.

„Ef hryðjuverkamennirnir í Afrin gefast ekki upp munum við rífa þá niður,“ sagði Erdogan við tyrkneska þingmenn um helgina.
Kúrdar í Afrin segja að þeir munu vera svæðið og ætli sér ekki að gefast upp. Þá saka þeir Tyrki um að brjóta á rétti Sýrlendinga og að grafa undan alþjóðlegri viðleitni til að finna lausn á átökunum þar í landi.
Fregnir hafa borist af því að Bandaríkin vinni nú með SDF að því að þjálfa um 30 þúsund landamæraverði í Sýrlandi. Talsmaður Erdogan sagði í dag að það væri óboðlegt og að Bandaríkin væru að reyna að auka trúverðugleika og lögmæti SDF til að stjórna svæði í Sýrlandi. Tyrkir gætu ekki og myndu ekki sætta sig við það.