Keppt er í átta greinum, liðin eru einnig átta og er hvert þeirra með fimm liðsmenn. Þrír þeirra keppa hverju sinni, en Meistaradeildin er bæði einstaklings – og liðakeppni.
Þjálfun hefur staðið yfir frá því snemma vetrar í tamningastöðinni á Árbakka í Rangárþingi til að koma keppnishestum í form fyrir keppni í Meistaradeildinni.
Hulda Gústafsdóttir, sem er í liði Hestvits/Árbakka/Sumarliðabæjar, segir veturinn líta vel út. „Hann leggst vel í mig, allt er komið á fullt, en við vitum af reynslunni að það þarf að byrja að þjálfa keppnishestana snemma fyrir Meistaradeildina.“
Liðið er kynnt í meðfylgjandi myndbandi, en það missti lykilmann á ögurstund. Hulda segir það þó ekki koma að sök.
„Við fengum öflugan knapa í staðinn, Gústaf Ásgeir Hinriksson, sem er með fína hesta. Við erum hin bröttustu og gefum ekkert eftir,“ segir Hulda.
Meistaradeildin er ein sterkasta keppni sem fram fer í hestaíþróttum í Íslandshestaheiminum og er ómissandi fyrir alla áhugamenn um hesta að fylgjast með.
Keppnin er sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og unnt er að tryggja sér áskrift á 365.is/bestasaetid. Einnig er unnt að fylgjast með á netinu á oz.com/meistaradeildin.