Skoðun

Limlestingar

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Frumvarp til laga um bann við því að klippa litlu tá vinstri fótar af sveinbörnum hefur vakið mikla athygli og það sem undarlegra er nokkrar deilur.

Djók! Það þarf ekkert að lögfesta bann við því að fjarlægja tá af strákum. Það er svo galið að sérstakt bann er óþarft. Önnur og undarlegri lögmál gilda um blessaða forhúðina. Hana þarf að vernda með lögum fyrir draugum fortíðar sem ganga enn ljósum logum með tangir sínar og skurðartól.

Það fyrirfinnst í alvöru fólk árið 2018 sem telur sér ljúft og skylt að standa vörð um getnaðarlimlestingar. Einna helst vegna þess að í einhverjum samfélögum sé fyrir þeim árþúsunda hefð og því sé barasta alveg ótækt að svipta foreldra réttinum til þess að láta limlesta börnin sín.

Þeir sem standa vörð um umskurð drengja láta eins og það séu mannréttindi að foreldri geti með geðþóttaákvörðun látið skera í heilbrigðan vef á líkama barns síns. Reginfirra. Það eru forréttindi að geta refsilaust limlest barnið sitt. Fornaldarleg forréttindi sem ber að afnema.

Hefðir geta verið ógeðslegar og mannfjandsamlegar, ekki síst þegar þær eiga rætur í grárri forneskju hvar heimska, bábiljur og hindurvitni voru merkingarmiðjan. Í Kína er löng hefð fyrir dauðarefsingum. Í Afganistan er góð og gild hefð fyrir því að grýta konur fyrir minna en engar sakir.

Að sjálfsögðu ber okkur að fordæma slíka villimennsku hvað sem öllum hefðum og fornum hálfvitagangi líður.

Manneskjan er snilldarlega samansett frá náttúrunnar hendi og allt, nema kannski botnlanginn, er nákvæmlega á sínum rétta stað. Þetta á við bæði um litlu tá og forhúðina á strákunum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×