Framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company sem stofnað var af Harvey Weinstein, mun sækjast eftir gjaldþrotaskiptum eftir að viðræður við nýja fjárfesta gengu ekki upp.
Viðræðunum var slitið fyrir tveimur vikum síðan eftir að saksóknari New York ríkis lagði fram kæru gegn fyrirtækinu.
„The Weinstein Company hefur verið í söluviðræðum í von um að varðveita eignir þess og störf,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn fyrirtækisins.
Þar sagði einnig að gjaldþrotaferli væri eini raunhæfi kosturinn til að hámarka verðgildi þess.
Weinstein hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi og áreitni í garð fjölda kvenna síðustu misseri, þar á meðal þekktra leikkvenna. Eins hefur verið greint frá því hvernig hann reyndi að koma í veg fyrir að ásakanirnar yrðu gerðar opinberar í gegnum tíðina.
Rúmlega fimmtíu konur hafa sakað hann um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni.
Í kæru saksóknarans segir að ýmsir hátt settir starfsmenn fyrirtækisins hafi, þrátt fyrir ýmis sönnunargögn, ekki brugðist við ofbeldi gegn starfsmönnum þess. Meðal þeirra sem sagður er hafa litið framhjá ofbeldinu er Robert Weinstein, bróðir Harvey.