Skoðun

Leiðtogakjör?

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Mikið er skelfilegt að horfa upp á það þegar fólk trúir á aðra dauðlega menn, býr sér til hálfguði. Bugtar sig og beygir fyrir þeim. Apar eftir þeim frasa og formúlur. Lætur taka af sér myndir við hlið þeirra. Kýs þá í kosningum og tekur á sig höggin sem misgjörðir þeirra kalla fram – sem er of oft.

En ef það er skelfilegt þá er ógeðslegt að horfa upp á átrúnaðargoðin spila inn á dýrkun hinna. Njóta þess að vera hálfguðir, þenjast út við hverja bjálfalega hneigingu lýðsins, leggja andakt­ugir við hlustir eftir eigin orðum úr munni hinna og geifla sig með grátlega heimóttarlegum einstaklingum á sjálfsmyndum safnaðarins.

Við gengum að kjörborðinu fræga á laugardaginn. Margir gátu vegið og metið málefni í friði og spekt – í mörgum hreppum lands var ekki lögð áhersla á persónudýrkun – heldur gengu listar fram í jafnræði; einstaklingar í auðmýkt. Þar fá málefnin margumtöluðu að ráða – í ró. Á hinum stöðunum, sem eru færri en oftast stærri, þurfum við að reyna að grína í fasteignagjöldin og útsvarið, fráveitumál og ferðamáta, í gegnum tannkremstúpur, fatabúðir og auglýsingastofur – eða þá í gegnum einhverjar óskilgreindar gáfur og yfirburði sem berast um stræti eða héruð líkt og þokuslæðingur; eins og spásagnir og gátur af galdraöld.

Fólk á ekki að trúa á annað fólk en sig sjálft. En heiðra aðrar manneskjur, eftir ígrundun – séu þær þess virði. Tal um sterka leiðtoga og pólitískar yfirburðamanneskjur er hjómið eitt. Þetta er fólk eins og við – hvorki merkilegra né ómerkilegra. Þó reyndar, stundum, ómerkilegra. Því þetta fen sem áður er lýst, er kjörlendi siðblindra.

„Við tökum manna vitnisburð gildan en vitnisburður Guðs er meiri.“




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×