Hin nýgiftu hertogahjón Harry Bretaprins og Meghan Markle hafa gefið út opinberar brúðkaupsmyndir. Myndirnar voru birtar á samfélagsmiðlum konungsfjölskyldunnar í dag.
Sjá einnig: Sérfræðingar í varalestri rýndu í brúðkaupið: „Er hún komin?“
Ljósmyndarinn Alexi Lubomirski tók myndirnar en tvær þeirra eru teknar inni í grænu viðhafnarstofunni í Windsor-kastala að athöfn lokinni á laugardag. Á annarri má sjá Harry og Meghan umvafin fjölskyldum sínum en Doria Ragland, móðir Meghan Markle, Elísabet Bretadrottning, Karl prins, og hertogahjónin af Cambridge, Vilhjálmur og Katrín, eru öll á myndinni. Börnin sem tóku þátt í brúðkaupinu, þar á meðal Georg og Karlotta, bróðurbörn Harrys eru einnig á brúðkaupsmyndunum.
Harry og Meghan eru ein á þriðju myndinni en þar sitja þau á tröppum austurverandar Windsor-kastala.
Í tilkynningu sem konungsfjöskyldan sendi frá sér ásamt myndunum segir að hertogahjónin af Sussex séu þakklát öllum þeim sem tóku þátt í brúðkaupsfögnuði þeirra á laugardag. Þau lýsa einnig yfir ánægju sinni með brúðkaupsmyndirnar og skila kærum þökkum til allra sem hafa sent þeim hamingjuóskir.