Gestgjafar HM í sumar, Rússar, koma ekki sjóðandi heitir inn í mótið en þeim mistókst að vinna sjöunda leikinn í röð er liðið gerði 1-1 jafntefli við Tyrki í kvöld.
Leikið var á VEB leikvanginum í Moskvu og kom Aleksandr Samedov Rússunum yfir í fyrri hálfleik, nánar tiltekið á 36. mínútu.
Þannig stóðu leikar allt þangað til á 60. mínútu er Yunus Malli jafnaði metin fyrir Tyrki og lokatölur 1-1.
Þetta er sjöundi leikurinn í röð sem Rússarnir ná ekki að vinna. Þeir hafa gert þrjú jafntefli og tapað fjórum af síðustu sjö leikjum en síðasti sigurleikurinn kom í byrjun október á síðasta ári gegn Kóreu.
