Átökin um Árneshrepp halda áfram þrátt fyrir heitstrengingar fulltrúa andstæðra fylkinga í síðustu viku um að nú skyldu allir verða vinir og standa saman. Andstæðingar Hvalárvirkjunar, undir forystu Ólafs Valssonar, sem hlutu engan mann kjörinn í hreppsnefndina, hafa nú kært úrslit kosninganna. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins snýst kæran um þær ákvarðanir Þjóðskrár og hreppsnefndar sem leiddu til þess að sextán manns voru strikaðir út af kjörskrá.

Við spurðum oddvita Árneshrepps, Evu Sigurbjörnsdóttur, hvort þessir lögheimilisflutningar hafi verið tilraun til þess að ná völdum með ólögmætum hætti:
„Hvað heldur þú?“
-Ég spyr þig.
„Já, ég held það hljóti að vera.“
-En þarf þá ekki að fylgja því eftir með lögreglurannsókn og ákæru?
„Það er ekki mitt að skera úr um það. Það voru ekki við í sveitarstjórn sem settu þetta fólk út af kjörskrá hér. Það var Þjóðskrá í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands. Það er eina stofnunin, eini aðilinn, sem hefur leyfi til að gera slíkt. Og ég held að það hljóti að vera í höndunum á þeirri stofnun að ákveða hvað verði gert í framhaldinu,“ svarar Eva.

„Það er ekki okkar hlutverk að taka ákvörðun um það,“ sagði Ástríður.
Samkvæmt lögum er það hlutverk ákæruvaldsins að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þær upplýsingar fengust frá ríkissaksóknara í dag að málefni Árneshrepps væru ekki á borði embættisins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: