Ivanisevic lá aldrei á skoðunum sínum og það elskuðu Englendingar en kannski minna akkúrat núna eftir stutt viðtal hans við BBC. Hann var gripinn fyrir utan einn tennisvöllinn og spurður út í viðureign kvöldsins á HM.
Þar mæta hans menn enska landsliðinu í undanúrslitum HM 2018 en sigurvegari kvöldsins mætir Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudaginn.
„Ég vona að við töpum ekki fyrir Englandi því þið eruð nú þegar búin að vinna. Þið eruð að koma heim með bikar,“ segir Ivanisevic og vitnar í lagið It´s coming home.
„Þið eruð svo hrokafull. Þið eruð best og fallegust. Þið munuð svo sannarlega koma heim en vonandi bara ekki með bikar,“ segir hann.
Króatinn er staddur á Englandi að fylgjast með Wimbledon þannig hann neyðist til að horfa á leikinn með enskum stuðningsmönnum.
„Ég finn mér einhvern bar og horfi með Englendingum. Vonandi verð ég einn eftir hlæjandi,“ segir Goran Ivanisevic.
Viðtalið má sjá hér að neðan.