Reykjavíkurborg bannaði hjálmagjafirnar árið 2014 því þær stönguðust á við reglur borgarinnar sem kveða á um að ekki megi afhenda grunnskólabörnum gjafir á skólatíma séu á gjöfunum merkingar. Af þessum sökum furða foreldrar, sem Vísir hefur rætt við í morgun, sig á því að Mjólkursamsölunni hafi verið heimilt að dreifa mjólk í fjölda reykvískra skóla í gær – í tilefni „Alþjóðlega skólamjólkurdagsins.“ Mjólkurvörurnar séu merktar MS og því hafi þeir átt erfitt með að skilja hvar munurinn á merktum mjólkur- og hjálmagjöfum liggur.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Vísi að þrátt fyrir að gjafirnar kunni að virðast sambærilegar telji sviðið að á þeim sé grundvallarmunur. „Mjólkin er gjöf til skólans, sem er þá neytt á þessari stundu og þangað til að hún er búin, á meðan hjálmarnir gera barnið að gangandi auglýsingu fyrir Eimskip. Í því felst munurinn,“ segir Helgi.

„Þegar það er gjöf til barns í gegnum skóla, sem að er barninu til eignar og ber auglýsingu, það er litið öðrum augum.“
Sviðið hafi þannig bent Kiwanis-mönnum á að þeir gætu komið sér upp gjafastöð, t.d. í Kringlunni, þar sem hægt væri að úthluta merktu hjálmunum. „Þá er val foreldra hvort þau fari með börnin til að þiggja gjöfina eða ekki.“ Þarna [í hjálmagjöfunum] var hins vegar verið að nota skólann sem vettvang til gjafa til barna án þess að foreldrar hefðu í raun aðkomu að málinu. Þar liggur þessi munur,“ segir Helgi.

„Þau eru öll merkt viðkomandi framleiðanda. Í mynd- og handmennt er til að mynda verið að nota liti, hvort sem það eru gamlir Crayon-litir eða Neocolor. Við erum að láta börn nota tölvur í skólanum, þær eru merktar framleiðandanum. Við getum aldrei þurrkað öll auðkenni af vörum sem við erum að afhenda börnum til notkunar í skólastarfi,“ segir Helgi.
Varan verði að standast siðferðismat
Þannig að það er ekki litið svo á að mjólkurgjöfin inni í skólanum geri barnið að auglýsingaskilti?„Nei, nú erum við að láta börn fá námsgögn til að nota í skólanum - þau eru ekki að fara með þau heim.“
Þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að önnur fyrirtæki geri slíkt hið sama?
„Að gefa skólanum gjafir sem nýtast í skólastarfi? Nei, nei.“
Segjum að ég væri að flytja inn heilsusmyrsl, mætti ég gefa börnunum það?
„Til notkunar í skólastarfi? Já, ef það er mat skólans að það skipti máli í þessu starfi. Varan verður líka að standast siðferðismat, hvað er viðeigandi í skólastarfi og hvað ekki,“ segir Helgi og bætir við, aðspurður að endingu um muninn á mjólkur- og hjálmagjöfum:
„Punkturinn er að gjöf á hlut sem merktur er fyrirtæki fari ekki fram í gegnum skólann. Það er í rauninni það sem við vorum að fetta fingur út í. Við hvöttum Kiwanis til að dreifa þessu eftir skóla, í kirkjum eða stórmörkuðum og verslunum, en þeir vildu það ekki. Þeir vildu fara í gegnum skólann.“
En þar sem gjöfin frá MS er til skólans en ekki barnanna, að þá lítið þið þetta öðrum augum?
„Já, og líka vegna þess að börnin fara ekki með þetta heim. Þau neyta vörunnar á staðnum. Þetta er val barnsins,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.