Hinn 26 ára gamli Obada er fæddur í Nígeríu en flutti ungur að árum til Hollands. Er hann var tíu ára gamall var hann sendur ásamt systur sinni til London. Þar voru þau heimilislaus á götunni.
Vinur foreldra þeirra tók þau til sín í skamman tíma en þar sem viðkomandi átti þegar fyrir fimm börn gat hún ekki verið með þau lengi. Þá voru systkinin send til félagsþjónustunnar og þau flökkuðu milli fósturheimila næstu árin.
Obada byrjaði að reyna fyrir sér í amerískum fótbolta og fyrir fjórum árum síðan komst hann í liðið hjá London Warriors. Þar vakti hann fljótt athygli og Dallas Cowboys fór að spyrjast fyrir um hann og hann æfði með liðinu í London. Hann fékk svo æfingasamning og fór með liðinu til Bandaríkjanna. Obada náði ekki heilla nægilega mikið og var sleppt.
Þá var komið að Kansas City Chiefs sem fékk hann til æfinga árið 2016. Hann stoppaði stutt þar og fór nokkrum mánuðum síðar til Atlanta. Hann náði ekki í 53 manna hóp hjá hvorugu félaginu.
Hann komst síðan í hóp hjá Carolina Panthers á síðasta ári en spilaði ekki fyrr en um síðustu helgi og sá nýtti tækifærið.
You're not taking this play from Efe‼️ pic.twitter.com/8LN4DqdgEd
— Carolina Panthers (@Panthers) September 23, 2018
„Er þeir kölluðu á mig þá vissi ég að þetta tækifæri yrði ég að nýta í botn,“ sagði himinlifandi Obada en honum var hrósað í hástert af liðsfélögum eftir leikinn og fór heim með boltann úr leiknum.
Verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu hjá honum.
TELL US HOW YOU FEEL @EfeObadaUK pic.twitter.com/0HHtsJNP9I
— Carolina Panthers (@Panthers) September 23, 2018