Vandræðaganginum í kringum bandaríska fimleikasambandið er ekki lokið og nú síðast var fyrrum forseti sambandsins handtekinn fyrir að leyna sönnunargögnum í málinu gegn Larry Nassar.
Sá heitir Steve Penny og er sakaður um að hafa fjarlægt skjöl sem voru mikilvæg í málarekstrinum gegn Nassar sem hefur verið dæmdur í meira en 300 ára fangelsi. Nassar braut á fjölda fimleikastúlkna og þar af stærstu stjörnu bandarískra fimleika. Í heildina er hann sakaður um að hafa brotið á 300 stúlkum.
Penny sagði af sér á síðasta ári þegar málaferlin gegn Nassar voru í fullum gangi.
Réttað verður yfir Penny í Texas og hann á yfir höfði sér tveggja til tíu ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur.
Í fyrradag sagði bráðabirgðaforseti fimleikasambandsins af sér eftir aðeins fjóra daga í starfi. Það virðist því vera langt í að sambandið nái sinni starfsemi almennilega í gang aftur.