Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir, annar yfirþjálfara íslenska landsliðshópsins í hópfimleikum, var að vonum mjög ánægð með gærdaginn þar sem bæði lið Íslands í unglingaflokki komust áfram í úrslit.
„Ég er gríðarlega ánægð,“ sagði Hrefna í lok keppnisdagsins í gærkvöld.
Blandað lið unglinga lenti í fjórða sæti í sinni undankeppni og stúlknaliðið varð í öðru sæti. Bæði keppa til úrslita á morgun, föstudag.
„Blandaða liðið var bara að standa sig alveg þrusu vel og eiga fullt heim að sækja á föstudaginn. Sama má segja um stelpurnar, stóðu sig hörku vel og það er mjög margt sem þær mega sækja þannig að við erum að fara í titilkeppni og ætlum að berjast af fullri hörku.“
Bæði lið gerðu aðeins af mistökum í sínum æfingum og náðu ekki að lenda öll stökkin sín. Hrefna segir það í raun jákvætt því þá geti liðin bætt sig.
„Það er bara það sem við viljum á fyrsta degi. Við viljum ekki vera með gjörsamlega fullkominn dag, við erum bara glöð að hafa hluti til að vinna í.“
„Við vitum alveg að þetta eru bara litlir hlutir og við munum einbeita okkur að réttu hlutunum í úrslitunum og toppa þar,“ sagði Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir.
Í dag keppa lið Íslands í fullorðinsflokki í undanúrslitum. Keppni hefst hjá blönduðu sveit Íslands klukkan 14:00 að íslenskum tíma og verður bein textalýsing frá báðum undankeppnum hér á Vísi.

