Neytendasamtökin beina þeim tilmælum til Samkeppniseftirlitsins að í umfjöllun um hugsanlega sameiningu Wow og Icelandair verði fyrst og fremst tekið mið af hagsmunum neytenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.
Í tilkynningunni segir að tryggja verði virka samkeppni í flugsamgöngum, neytendum til hagsbóta.
„Almenningur í landinu á mikið undir því að virk samkeppni ríki í flugsamgöngum. Þá beinir stjórn Neytendasamtakanna þeim tilmælum til stjórnar Icelandair Group að velta ekki kostnaði á herðar neytenda með hækkun farmiðaverðs. Neytendasamtökin munu fylgjast náið með framvindu þessa máls.“
Greint var frá kaupum Icelandair Group á öllu hlutafé í Wow Air í dag en kaupin áttu sér skamman aðdraganda. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði í samtali við Vísi í dag að gera mætti ráð fyrir því að verð á flugmiðum hækki eftir kaupin.

