„Ég sat bara heima og var að undirbúa mig að koma og var í raun bara að bíða eftir því að ganga út um dyrnar. Hálftíma áður en ég átti að mæta bankar maður á hurðina og ég opna. Hann spyr mig hvort ég sé Heiðar Logi og svo segist hann vera frá lögreglunni. Fyrsta sem ég hugsaði var, hvað gerði ég af mér. Hann var kominn til að tilkynna mér það að pabbi minn væri dáinn,“ segir Heiðar Logi Elíasson sem er sjöundi gestur Einkalífsins á Vísi.
Á honum mikið að þakka
Heiðar hefur undanfarnar vikur verið að gera upp missinn og hefur það verið mjög erfitt. Heiðar Logi ólst upp hjá móður sinni og segist hann eiga henni mikið að þakka, en einnig föður sínum.„Ég á honum mikið að þakka því þetta var mín besta forvörn og þetta hefur kennt hvernig ég vill ekki lifa lífinu mínu. Þetta er í rauninni ástæðan fyrir því að ég tók lífið mitt í gegn og ákvað að ég ætlaði að gera það sem mig langaði að gera, í stað þess að vera fastur í því sem mig langar ekki að vera gera,“ segir Heiðar og bætir við að hann hafi hætt að drekka þegar hann var 19 ára.
„Það var svolítið vandamál hjá mér, því ég vissi að ég ætti ekki að vera drekka. Ég var slæmur í áfengi og réði ekki við það. Mig langaði að drekka til að gleyma. Ég áttaði mig á því að ég ætti ekki að vera drekka og pabbi væri skýr skilaboð að ég ætti að taka mig á.“
Í þættinum ræðir Heiðar Logi einnig um ofvirknina og athyglisbrestinn, um ást sína á snjóbrettinu og brimbrettinu, um jóga, og dagana fjóra í Málmey. Heiðar kemur einnig inn á fyrirsætustörfin og hvað sé framundan hjá honum.
Hér að neðan má sjá sjöunda þáttinn af Einkalífinu.