Trump hefur fellt niður þó nokkrar reglugerðir sem snúa að umhverfisvernd í Bandaríkjunum og hefur ekki tekið upp neins konar umhverfisstefnu.
„Eitt af vandamálunum sem fólk eins og ég, við erum með hátt gáfnastig en trúum þessu ekki endilega þannig,“ sagði Trump í viðtali sem Washington Post birti í gær.Þar var hann spurður út í loftlagsbreytingar.
„Varðandi það hvort það er af mannavöldum eða ekki og hvort þessi áhrif sem þú ert að tala um eru þarna eða ekki, ég sé það ekki.“
Í stað þess að ræða það sem vísindamenn segja að sé að keyra loftslagsbreytingar áfram; koltvísýringur sem myndast við brennslu jarðefnaeldsneytis, fór forsetinn að tala um mengun í öðrum löndum og í höfum jarðarinnar og stýringu skógvaxinna svæða.
„Þú horfir á loftið okkar og vatnið okkar og núna hefur það aldrei verið hreinna,“ sagði Trump. „En ef þú horfir á Kína og þú horfir á hluta Asíu og þú horfir á Suður-Ameríku og þegar þú horfir á marga aðra staði í heiminum, þar á meðal Rússland, auk margra annarra staða, er loftið ótrúlega óhreint, og þegar þú talar um gufuhvolf, þá eru höfin mjög smá. Þetta blæs hingað yfir og siglir hingað yfir. Ég meina við tökum alltaf þúsundir tonna af rusli af ströndum okkar sem kemur hingað frá Asíu. Það bara flæðir beint niður Kyrrahafið. Það flæðir og við segjum: Hvaðan kemur þetta? og það þarf svo mikið fólk, til að byrja með.“
Eins og bent er á í umfjöllun WP hefur hitastig jarðarinnar hækkað og hafa margar rannsóknir sýnt fram á að verði ekki dregið úr losun koltvísýrings muni hlýnunin halda áfram og á endanum valda óafturkræfum skaða. Sameinuðu þjóðirnar sögðu í gær að ekki hefði gengið nægilega vel að draga úr losun koltvísýrings og að þjóðir heimsins væru langt frá því að standa við loforð sín í þeim efnum.
Blaðamenn Washington Post báru ummæli Trump undir loftslagsvísindamenn sem spöruðu ekki stóru orðin.
Katharine Hayhoe sagði staðreyndir vera sannar þó fólk trúði þeim ekki. Það að forseti Bandaríkjanna kysi að trúa þeim ekki setti Bandaríkin og hundruð milljónir manna í hættu.
Andrew Dessler átti erfitt með að tjá sig um ummæli forsetans.
„Hvernig í ósköpunum er hægt að svara þessu?“ sagði Dessler. Hann sagði ummæli Trump vera heimskuleg og að svo virtist sem að hann vildi eingöngu ráðast gegn umhverfisstefnumálum Barack Obama og gagnrýna pólitíska andstæðinga sína.