„Ég er um 81 kíló og hef verið að borða vel. Ég held að þetta verði auðveldur niðurskurður eins og alltaf,“ segir Gunnar við Vísi í gær en hann var þá tiltölulega nývaknaður og silkislakur með fyrsta kaffibolla dagsins.
Gunnar hefur verið að gera ýmislegt til þess að dreifa huganum í Toronto. Æfa og horfa á bíó. Hann fór svo með glímuþjálfaranum sínum, Matt Miller, til foreldra Miller sem búa í 90 mínútna fjarlægð.
Gunnar æfði eingöngu heima á Íslandi fyrir þennan bardaga en hefur oft farið og æft hjá SBG á Írlandi. Hann er afar ánægður með æfingabúðirnar.
„Þessar æfingabúðir hafa verið hrikalega góðar. Það hafa verið góðir menn að æfa með mér heima. Svo bætti ég við mig Unnari Helgasyni sem hefur séð um styrktarþjálfunina mína. Það hefur breytt heilmiklu. Þetta er í fyrsta skipti sem það hefur verið tekið upp á þetta level. Það finna allir í þessum æfingabúðum mikinn mun á sér eftir það.“
Vísir er í Toronto og fylgist ítarlega með öllu í aðdraganda UFC 231. Bardagi Gunnars á laugardag er í beinni á Stöð 2 Sport.