Hrund Gunnsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð. Í tilkynningu kemur fram að hún hefji störf í febrúar.
„Hrund er þróunarfræðingur MSc. frá London School of Economics, með diplóma frá Harvard Kennedy School í leiðtogafræðum og opinberri stjórnsýslu og hefur einnig stundað leiðtoga- og stjórnendanám við Yale háskóla, Stanford og Oxford Saïd Business School.
Hún hefur víðtæka 20 ára ráðgjafa- og stjórnunarreynslu, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, hefur setið í fjölmörgum stjórnum og sérfræðingahópum og er stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs.
Hrund hefur starfað sem stjórnandi, ráðgjafi og opinber starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og situr í sérfræðingaráði Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á sviðum tengdum fjórðu iðnbyltingunni og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hrund hefur jafnframt starfað sem fyrirlesari víða um heim og verið ráðgefandi fyrir leiðtoga og frumkvöðla á sviði nýsköpunar og þróunarstarfs.
Hrund er handritshöfundur og annar tveggja leikstjóra heimildarmyndarinnar InnSæi – the Power of Intuition, sem sýnd er um allan heim á Netflix og fjallar um áhrif ört breytilegs heims á einstaklinga, menntun og vinnumarkað. Hrund hannaði og stýrði Prisma diplómanáminu 2008-2010 í samvinnu við Listaháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og ReykjavíkurAkademíuna, sem hlaut viðurkenningu Norðurlandaráðs fyrir að svara hvað best kröfum vinnumarkaðarins á 21. öldinni. Hún hefur kennt leiðtoganámskeið og námskeið um gagnrýna og skapandi hugsun í alþjóðlegu samhengi í háskólum hérlendis og erlendis. Sem blaðamaður og greinahöfundur frá árinu 1999, hefur Hrund lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð, nýsköpun og alþjóðlega þróun. Hrund er ein af ungum leiðtogum Alþjóðaefnahagsráðsins, var valin Menningarleiðtogi hjá Alþjóðaefnahagsráðinu árið 2017 og Yale Greenberg World Fellow árið 2016,“ segir í tilkynningunni.
Erla Tryggvadóttir er starfandi framkvæmdastjóri Festu.
