Orri Þrastarson, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands, segir mjög þungt hljóð í félagsmönnum eftir daginn í dag en fjörutíu fastráðnir flugliðar hjá WOW air misstu vinnuna í dag auk tuga annarra sem voru með tímabundna sem verða ekki endurnýjaðir.
Alls misstu á fjórða hundrað starfsmanna WOW vinnuna í dag; 111 fastráðnir starfsmenn og yfir 200 verktakar og starfsmenn á tímabundnum samningum fá þá samninga ekki endurnýjaða.
„Þetta er ekki skemmtilegur dagur,“ segir Orri í samtali við Vísi.
Hann segir uppsagnirnar koma á vondum tíma, svona rétt fyrir jól.
„Það er mjög þungt hljóð í félagsmönnum. Þetta er rétt fyrir jól og kemur á vondum tíma. Hugur okkar er hjá félagsmönnum og við höfum virkjað okkar trúnaðarmenn.“
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, sagði að dagurinn væri sá erfiðasti í sögu fyrirtækisins. Það væri hins vegar nauðsynlegt að grípa til hagræðingaraðgerða, uppsagna, fækkunar flugvéla og einföldunar á leiðakerfi, til að tryggja framtíð félagsins.
WOW air á nú í samningaviðræðum við Indigo Partners um að það fjárfesti í flugfélaginu. Skúli sagði í samtali við fréttastofu í dag ekki lægi fyrir hvenær þeim viðræðum myndi ljúka. Vinnan í viðræðunum gangi hins vegar vel.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, sagði í samtali við Vísi í dag að hann teldi Skúla ekki hafa langan tíma til þess að semja við Indigo.
„Ég myndi segja að þetta þyrfti að klárast allavega fyrir áramót,“ sagði Sveinn.

