Ásdís Ýr Pétursdóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Icelandair Group. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en Ásdís tekur við starfinu af Guðjóni Arngrímssyni.
Í tilkynningunni segir að Ásdís hafi yfir 15 ára reynslu á sviði samskipta- og kynningarmála, á Íslandi sem og á alþjóðavettvangi.
„Hún hefur starfað við ráðgjöf undanfarin misseri en var sviðsstjóri samskiptasviðs hjá Actavis á Íslandi á árunum 2013 til 2017 og verkefnastjóri og síðar forstöðumaður samskiptasviðs hjá Bakkavör Group á árunum 2005 til 2011.
Áður starfaði hún við markaðs- og kynningarmál hjá Háskólanum í Reykjavík og hjá alþjóðlegu tæknifyrirtæki í Bretlandi. Ásdís er með BA próf í almannatengslum frá Mount Saint Vincent University í Kanada,“ segir í tilkynningu Icelandair Group.
