Ívar Meyvantsson og Kjartan Einarsson hafa verið ráðnir sem stjórnendur hjá hátæknifyrirtækinu Völku.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Ívar hafi nýverið tekið við starfi vöruþróunarstjóra, en vöruþróunarsvið er annað tveggja stærstu sviða innan fyrirtækisins og snýr starfsemi þess að hug- og vélbúnaðarþróun Völku.
„Ívar hefur víðtæka reynslu af nýsköpun og vöruþróun innan hátæknifyrirtækja og starfaði hann meðal annars um árabil í tengslum við lyfjaþróun í Bandaríkjunum. Hann var rekstrarstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Invenra Inc. og framkvæmdastjóri heilbrigðistæknifyrirtækisins Mentis Cura ehf. Ívar er menntaður verkfræðingur og lauk doktorsprófi í heilbrigðisverkfræði frá Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum.
Kjartan Einarsson hefur verið ráðinn í starf yfirmanns daglegra innkaupa, birgðastýringu og lagers á framleiðslusviði Völku ehf. Kjartan hefur áralanga reynslu úr hátækniiðnaði og innkaupum, og undanfarin 15 ár vann hann við dagleg innkaup hjá Marel á Íslandi og stýrði þeirri einingu síðustu fjögur ár,“ segir í tilkynningunni.
Valka hefur sérhæft sig í hönnun og markaðssetningu á tæknibúnaði og hugbúnaði fyrir fiskiðnaðinn, til að mynda beinaskurðarvélum.
