Framkvæmdir við Braggann í Nauthólsvík og aðrar byggingar í grennd við hann fóru um 350 milljónir fram úr áætlun borgarinnar, eins og frægt er orðið. Borgarfulltrúar minnihlutans í borgarstjórn hafa verið afar harðorðir í garð meirihlutans vegna framúrkeyrslunnar og nú síðast lögðu fulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins til að málinu verði vísað til héraðssaksóknara.
Afsakar ekki bruðlið
Daði tjáir sig um málið í Facebook-færslu sem hann birti í dag. Hann segist sjálfur hafa „óbeit á bruðli“ og tekur sérstaklega fram að hann hyggist ekki afsaka framúrkeyrsluna við framkvæmd Braggans. Hins vegar vilji hann nefna nokkra hluti í tengslum við málið sem hann telur hafa verið hlunnfarna í umræðunni.„Ég er ekki að afsaka framkvæmd, kostnað eða skipulag Reykjavíkurborgar í þessu máli. Þvert á móti finnst mér að umræðan ætti að snúast um rétta hluti, hluti sem kosnir fulltrúar hafa á undanförnum mánuðum afbakað og skælt og sér í lagi Vigdís Hauksdóttir.“
Í því samhengi bendir Daði á að Bragginn sé aðeins eitt hús af þremur ásamt lóðum.
„Þetta eru því Bragginn, frumkvöðlasetur, náðhús og tengibyggingar ásamt lóðum sem málið snýst um, ekki “bara” einhver braggi. Ég býð hverjum sem hefur áhuga á að koma og skoða húsin og lóðirnar til að gera það. Sjá hversu viðamikið þetta verkefni er,“ skrifar Daði.
Starfsmenn neyðast til að svara fyrir „óábyrga umræðu stjórnmálamanna“
Þá segir hann áðurnefnda Vigdísi borgarfulltrúa Miðflokksins, Eyþór Arnalds borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og aðra í minnihlutanum halda á lofti „óábyrgri umræðu“, til að mynda með því að lýsa Bragganum sem „kofaskrifli“. Orðræða minnihlutans geri það jafnframt að verkum að starfsfólk Braggans þurfi sífellt að afsaka vinnustað sinn.„Þetta er fólk sem þarf að svara fyrir mistök annara, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna og reyna að útskýra að hvorki þau né þeir aðilar sem koma að rekstri Braggans Bar & Bistró hafa ekkert með þann kostnað, framkvæmdir eða annað sem misfórst í byggingu húsana að gera.“
Færslu Daða má nálgast í heild hér að neðan.