Hilmar hefur nú lokið keppni á HM sem fram fer í Slóveníu en hann hafnaði í 20. sæti í stórsvigi og 4. sæti í svigi eftir tvær stórglæsilegar ferðir í dag.
Hilmar var fimmti eftir fyrri ferðina en vann sig upp um eitt sæti í seinni ferðinni en þar bætti hann tíma sinn um 1,3 sekúndur frá fyrri ferð.
Frakkinn Arthur Bauchet vann gullið, Svisslendingurinn Thomas Pfyl landaði silfri og Ástralinn Mitchell Bourley varð þriðji aðeins 28 sekúndubrotum á undan Hilmari.
Hilmar hóf ferðina á heimsbikarmóti í Zagreb í Króatíu þar sem hann vann til gullverðlauna í svigi og varð þar með fyrstur Íslendinga til að vinna sigur á heimsbikarmóti í sögunni.
Á HM náði hann besta árangri sem íþróttamaður úr röðum fatlaðra á Íslandi hefur náð á heimsmeistaramóti í alpagreinum.
