Skoðun

Að byrja á byrjuninni

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Húsnæðismálin eru ein stærsta áskorunin sem ráða þarf fram úr í viðkvæmum kjaraviðræðum og mikið ríður á að leysist farsællega úr. Tillögur sem lagðar voru fram af stýrihópi um málið í gær fela í sér að sveitarfélög verði skylduð til að taka þátt í uppbyggingu almennra leiguíbúða og að stuðningur við óhagnaðardrifin leigufélög verði aukinn. Tillögur hópsins, sem eru í 40 liðum, miða einkum að því að byggðar verði fleiri íbúðir á viðráðanlegu verði. Það er ekkert nýmæli, heldur nokkuð sem fjölmargir hafa bent á undanfarin ár.

Forkólfar verkalýðsfélaganna hafa sagt að launahækkanir undanfarinna ára hafi brunnið upp á húsnæðismarkaði. Sumir hafa gengið svo langt að lýsa yfir neyðarástandi í þeim efnum, þá sérstaklega í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins. Það er mikið til í þeim fullyrðingum. Fáum dylst ástandið á húsnæðismarkaði þar sem verðið hefur hækkað vel umfram launaþróun síðustu ár. Erfitt er að eignast fyrstu íbúð. Leiguverð hefur hækkað. Íbúðalánasjóður metur sem svo að þúsundir íbúða vanti inn á markaðinn, til viðbótar við það sem þegar er byggt.

Þá er nefnt í tillögunum að einfalda þurfi regluverk og rafvæða þurfi stjórnsýsluna til þess að greiða götuna fyrir uppbyggingu. Þar þurfa sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að standa sig betur.

Flókið regluverkafargan er stór hluti vandans. Með því að ráðast í að einfalda það er hægt að byggja hagkvæmari íbúðir á skemmri tíma. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hefur bent á að farganið geri ráð fyrir sömu kröfum við byggingarframkvæmdir hvort sem á að byggja einbýlishús eða hátæknisjúkrahús. Það er einfaldlega galið fyrirkomulag – sem skilar litlu öðru en tímaeyðslu embættismanna, leggur stein í götu verktaka og eykur kostnað almennings.

Sveitarfélögin bera mikla ábyrgð. Þau fara með skipulagsvald. Víða hefur ekki verið staðið nægilega vel að uppbyggingu húsnæðis, til að mynda í borginni, þar sem stórar íbúðir eru iðulega byggðar á ódýrum svæðum og litlar íbúðir á dýrum svæðum. Stefna borgaryfirvalda á stóran þátt í því neyðarástandi sem ríkir. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag gerir lítið fyrir tekjulitla og eignalága og þá sem eru að festa kaup á sinni fyrstu eign. Vissulega sníða byggingarreglugerðir uppbyggingu þröngan stakk, en það er sveitarfélaga að þrýsta á um sveigjanlegra regluverk. Það er sveitarfélaga að úthluta lóðum á hagstæðum svæðum, undir hagkvæmt húsnæði. Það er sveitarfélaga að stilla gjaldtöku í hóf og það er sveitarfélaga að tryggja skilvirkni í leyfisveitingum. Núverandi stefnu þarf að breyta.

Ærið verkefni er fram undan til þess að laga stöðuna á húsnæðismarkaði. Einhvers staðar þarf að byrja. Til dæmis með því að einfalda frumskógarregluverkið sem gerir alla uppbyggingu mun erfiðari. Byrja á byrjuninni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×