Í Vogabyggð geta risið um 1300 íbúðir í fyrstu þremur áföngum uppbyggingarinnar. Tekjur borgarinnar af uppbyggingunni greiða kostnað við innviði þar með talið valin útilistaverk sem eru „aðeins brot af heildarkostnaðinum eða um 1%“.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir áætlað að Reykjavíkurborg fái tæpa sex milljarða í byggingarréttar- og gatnagerðargjöld vegna uppbyggingarinnar. Þær tekjur verði notaðar til að fjármagna alla innviði hverfisins eins og götur, lagnir, torg, lýsingu, gróður, skóla, leikskóla – og listaverk sem lóðarhafar greiða að jöfnum hluta á móti Reykjavíkurborg samkvæmt samningum.
Þannig greiðir Reykjavíkurborg tæpar 70 milljónir króna, sem kemur úr byggingarréttar- og gatnagerðargjöldum, á móti sömu upphæð frá lóðarhöfum.

Fjallað var um kostnaðinn við listaverkin í hádegisfréttum Bylgjunnar en auk þeirra stendur til að Reykjavíkurborg festi kaup á tillögu danska listamannahópsins A Kassen sem kallast Endalausi ljósastaurinn. Hann verður 30 metra hár og er gert ráð fyrir að hann kosti 12,5 milljónir króna uppsettur.
Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur sem mun vekja sérstaka athygli á slíkri list á árinu.
Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, kveðst fagna allri umræðu um list í almenningsrýmum.
„Verkið sem varð fyrir valinu er mjög djarft og skemmtilegt enda er listakonan þekkt fyrir slík verk. Það er fráleitt að verið sé að borga 140 milljónir króna fyrir trén sem slík. Þau munu ekki kosta nema brot af upphæðinni, heldur er verið að greiða fyrir höfundarverkið og gróðurhúsin sem eru hluti af verkinu,“ segir Ólöf.

Í lokaðan hluta samkeppninnar bárust 13 gildar tillögur að útilistaverkum og eru allar tillögurnar til sýnis á Kjarvalsstöðum til 7. febrúar næstkomandi.
Í kostnaðaráætlun fyrir verkið Pálmatrén er gert ráð fyrir að tvö pálmatré kosti um 1,5 milljón en hvort gróðurhús um 43 milljónir króna. Listamaðurinn fær 15 milljónir í sinn hlut og þá bætist við tæknilegur kostnaður sem áætlaður er 9 milljónir króna og skipulagskostnaður upp á 22 milljónir króna. Samanlagt 134 milljónir króna miðað við gengi krónunnar í maí í fyrra. Krónan hefur fallið nokkuð síðan þá og mun þá vænta að kostnaðurinn sé nær 140-150 milljónum króna.
„Vogabyggð verður talsvert stórt hverfi sem mun skapa borginni miklar framtíðartekjur. Jafnframt eru skilmálar um að 20% íbúða verði leiguíbúðir, stúdenta eða búseturéttaríbúðir og 5% íbúða verði félagslegar leiguíbúðir.“