Farþegaþota Icelandair sem verið hefur til viðgerða frá því hún varð fyrir skemmdum á jóladag var tekin aftur í notkun í gær. Eins og fram hefur komið fauk þotan til vegna hvassviðris og skall annar vængur vélarinnar á landgangi sem henni hafði verið lagt við.
Um er að ræða eina af nýjustu þotum Icelandair og var hún tekin í notkun í fyrra. Er hún af gerðinni Boeing 737 Max 8. Um leið og lagfæringar voru gerðar á vængnum mun tækifærið hafa verið notað til ýmissa endurbóta inni í vélinni sjálfri. Henni var flogið til New York síðdegis í gær eftir þetta ríflega fimm vikna hlé.
