Umskiptin sem laxeldið er að hafa í einstökum byggðum sjást best á sunnanverðum Vestfjörðum. Eldiskvíar eru komnar út á firði; í höfnum, þar sem orðið var dauflegt um að litast, iðar nú allt af lífi; og nýrisin seiðaeldisstöð er stærsta bygging í sögu fjórðungsins. Áætlað er að fiskeldisfyrirtæki hafi þannig fjárfest á síðustu árum fyrir þrjátíu milljarða króna, bara á Vestfjörðum.

„Við verðum að hafa í huga að það eru einungis um það bil tuttugu prósent strandlengjunnar sem eru opin fyrir laxeldi á Íslandi, þar sem Hafrannsóknastofnun telur innan skynsemismarka að stunda laxeldi,“ segir Kjartan Ólafsson.
Hann bendir að áhættumatið sé um 70 þúsund tonn. Framleiðslan hafi verið í kringum tíu þúsund tonn árið 2018.
„Þannig að það eru gríðarlegir vaxtarmöguleikar.“

Sjókvíaeldið situr hins vegar undir harðri gagnrýni þeirra sem óttast um afdrif villta laxins.
„Það er af og frá, að mínu viti, að hér sé einhver sérstök áhætta á ferð. Við leggjum til grundvallar áhættumat Hafrannsóknastofnunar, vísindamannanna okkar, og burðarþolsmatið. Og innan þess stranga ramma er þegar rúm fyrir verulegan vöxt,“ segir stjórnarformaður Arnarlax.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: