Þetta var annar leikur íslensku stelpnanna undir stjórn landsliðsþjálfarans Jóns Þórs Haukssonar en liðið vann Skota á dögunum í fyrsta leiknum hans.
Kanada er á leiðinni á HM í Frakklandi í sumar og er með fimmta besta landslið í heimi samkvæmt styrkleikalista FIFA.
Leikurinn endar með markalausu jafntefli.#LeiðinTilEnglands#fyririsland#dottirpic.twitter.com/TYP9e5DYW3
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) February 27, 2019
Kanadíska liðið var mun sterkara í leiknum og skapaði sér nokkur góð færi í báðum hálfleiknum en íslenska vörnin var oftast mjög vel vakandi og slapp líka nokkrum sinnum með skrekkinn ekki síst þegar Hallbera Guðný Gísladóttir bjargaði á marklínu með einhverjum undraverðum hætti í fyrri hálfleiknum.
Sandra Sigurðardóttir fékk tækifæri í íslenska markinu í þessum leik og átti mjög flottan leik en hún varði nokkrum sinnum vel úr dauðafærum og greip líka oft mjög vel inn í þegar þær kanadísku reyndu fyrirgjafir.
Kanadíska liðið átti sextán skot á móti aðeins fjórum frá íslenska liðinu en það var 5-2 í skotum á markið samkvæmt tölfræði kanadíska knattspyrnusambandsins. Lið Kanada var líka 61 prósent með boltann á móti 39 prósent hjá íslenska liðinu.
Sif Atladóttir fór meidd af velli eftir rúmlega klukkutíma leik en vonandi eru meiðsli hennar ekki alvarleg.