Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar síðan hann gekk út af hóteli sínu í Dyflinni um hábjartan dag um þarsíðustu helgi, án síma, veskis og vegabréfs. Fjölskylda Jóns Þrastar hélt út til Dyflinnar fljótlega eftir að hann hvarf en boðað var til fjölmennrar sjálfboðaliðaleitar í dag.
Sjá einnig: Skoða fjölda nýrra ábendinga í tengslum við hvarf Jóns Þrastar
Davíð Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir í samtali við Vísi að leitin hafi gengið mjög vel en hátt í hundrað manns tóku þátt í leitinni, þar af um sjötíu írskir sjálfboðaliðar.
„Þetta gekk allt áfallalaust fyrir sig og við komust yfir allt sem við ætluðum okkur í dag. Við náðum að afla miklu af góðum gögnum sem við náðum að taka saman og skiluðum inn til lögreglunnar eftir að leit lauk og við erum ótrúlega sátt með daginn.“
Hvaða gögn létuð þið lögreglu fá?
„Við náðum einhverjum myndavélum sem eru í einkaeigu, sem við höfum grun um að lögregla hafi ekki getað komist yfir, það er náttúrulega erfitt,“ segir Davíð.

„Þannig að við gengum hús í hús, nokkur hundruð eða þúsund hús, töluðum við nágranna og sýndum þeim mynd af Jóni og spurðum þau hvort þau vissu eitthvað eða hefðu séð eitthvað og út frá því fengum við margar góðar ábendingar frá fólki sem taldi sig mögulega hafa séð hann. Og fengum eitthvað myndefni af því svæði þar sem hann sást síðast, sem lögreglan er að vinna úr.“
Fjölskylda Jóns mun halda áfram leit í Dyflinni næstu daga. Þau vonast til þess að björgunarsveitir á Írlandi taki við keflinu.
„En ef það gerist ekkert nýtt á næstu dögum þá verður eflaust hrint af stað annarri stórleit,“ segir Davíð.
Fjallað verður ítarlega um leitina að Jóni Þresti í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.