Í dag rennur út frestur til þess að skila umsögnum um frumvarp landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á fersku kjöti. Með frumvarpinu er afnumin 30 daga frystiskylda. Í gær greindi Fréttablaðið frá könnun Zenter rannsókna sem sýndi að meirihluti landsmanna sé andvígur því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum.

„Frysting minnkar magn kampýlóbakter í kjötinu, það er það eina sem sýnt hefur verið fram á að frystingin geri. Frysting hefur ekki áhrif á aðrar bakteríur og ekki á ónæmið,“ segir Þórunn, en hún er sérfræðingur í sýklalyfjaónæmum bakteríum.
Hingað til lands eru flutt nokkur þúsund tonn af frystu kjöti á ári, hátt í fjögur þúsund tonn árið 2017 en dróst saman í fyrra. Þórunn segir erfitt að meta hvort sá innflutningur, sem er í raun óheftur umfram tollkvóta, hafi áhrif á fjölgun fjölónæmra baktería í mönnum hér á landi. Nærtækara sé þó að benda á aukna notkun sýklalyfja í mönnum og ferðalög fólks heimshorna á milli en á innflutning á kjöti. „Ef frystiskyldan verður afnumin þá eru auknar líkur á að fólk smitist af kampýlóbakter, sem gæti verið ónæmur fyrir sýklalyfjum, en ef fólk meðhöndlar matinn og eldar rétt þá ætti ekki að vera nein hætta á að smitast af kjötinu.“
Smithættan sé þá engin ef fólk eldar kjúkling í gegn og heldur óelduðu kjötinu fjarri grænmeti og öðru sem er borðað hrátt. „Þegar við eldum kjúklinginn eins og á að gera, þá drepum við bakteríurnar, líka þessar ónæmu.“