Skoðun

Ferskir vindar

Davíð Þorláksson skrifar
Fundur Íslendinga á Kanarí­eyjum ályktaði á laugardaginn í þá veru að fresta ætti að heimila innflutning á fersku kjöti. Ályktunin kemur líklega um 12 árum of seint, en það var árið 2007 sem íslensk stjórnvöld ákváðu að Ísland myndi innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Með því varð ljóst að við myndum þurfa að leyfa innflutning á fersku kjöti eins og síðar hefur verið staðfest af bæði Hæstarétti og EFTA-dómstólnum.

Matvælalöggjöf ESB gerir, eðli málsins samkvæmt, ekki greinarmun á kjöti og fiski. Og þar stendur hnífurinn í Galloway-kúnni. Þetta mál snýst nefnilega fyrst og fremst um útflutning á fiski, en ekki innflutning á kjöti. Viðskiptafrelsi er ekki einstefnugata. Ef við takmörkum innflutning á kjöti þá verður mun erfiðara fyrir okkur að flytja út fisk til ESB. Í því felast mun stærri hagsmunir í krónum talið fyrir Ísland. Aukið framboð af kjöti fyrir íslenska neytendur og ferskir vindar viðskiptafrelsis eru bara rúsínan í franska pylsuendanum.

Samhliða þessu verður gripið til mótvægisaðgerða til að draga úr hættu á að sýkingar berist til landsins. Það er þó aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir slíkt enda geta þær borist með erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands og Íslendingum sem ferðast erlendis. Grundvallaratriði er þó, í þessu eins og öðru, að treysta fullorðnu fólki til að taka sjálft ákvarðanir um það hvað það kaupir sér. Ætli til dæmis Íslendingarnir á Kanarí hafi tekið með sér nesti að heiman eða tekið upp vegan lífsstíl á meðan þau eru ytra?






Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×