Emmanuel Macron forseti Frakklands tilkynnti í gærkvöldi að stefnt skuli að því að Notre-Dame dómkirkjan verði endurbyggð á næstu fimm árum.
Ríkisstjórn Frakklands fundaði um málið í dag og að fundi loknum sagði forsætisráðherra landsins, Edouard Philippe, það vilja kaþólsku kirkjunnar, frönsku þjóðarinnar og trúaðra jafnt sem trúlausra um allan heim að endurreisa þennan mikilvæga hluta franskrar menningar.
„Þetta er vitaskuld gríðarlega krefjandi verkefni, söguleg ábyrgð, byggingarverkefni fyrir þessa kynslóð og komandi kynslóðir. Frakkland getur tekið þessari áskorun, ríkið getur tekið þessari áskorun, liðssöfnun er þegar hafin og þetta var umfjöllunarefni ríkisstjórnarfundarins í dag þar sem aðeins var fjallað um endurbyggingu Notre Dame,“ sagði Philippe.
Efnt verður til alþjóðlegrar samkeppni meðal arkitekta um hvort og þá hvernig eigi að endurbyggja spíruna sem sett var á kirkjuna á nítjándu öld og varð eldinum að bráð, en elsti hluti kirkjunnar er um 850 ára gamall.
Þá hafa stjórnvöld stofnað tvo sjóði sem eiga að halda utan um framlög til uppbyggingar kirkjunnar en nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir heitið háum fjárhæðum til verksins. „Þessir sjóðir munu fá peninga frá lögaðilum og einstaklingum til að fjármagna endurbyggningu og verndun Notre Dame dómsirkjunnar,“ sagði Philippe að loknum ríkisstjórnarfundi.