„Ekki stafar sérstök hætta af geðfötluðu fólki og mikilvægt að ala ekki á slíkum fordómum. Það virðist þrautseig mýta að fylgni sé milli geðfötlunar og þess að beita ofbeldi,“ segir í yfirlýsingu ráðsins.
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, setur spurningarmerki við yfirlýsinguna, hún sé taktlaus þótt innihaldið sé gott og gilt.

„Það varð allt vitlaust þegar það voru settar upp öryggisgirðingar í skjóli nætur og sérsveitin þurfti að koma oftar en einu sinni,“ segir Egill Þór, hann bætir við að engin vandamál hafi komið upp tengd búsetukjarnanum Rangárseli síðustu tvö ár.

„Það er sífellt verið að líkja þessu við úrræði í Rangárseli, sem er öryggisvistun. En geðfatlað fólk er jafn fjölbreyttur hópur og við hin. Þessi umræða er að mörgu leyti fordómafull og tiltölulega illa upplýst.“
Egill Þór er sjálfur íbúi í hverfinu og hefur rætt við fjölmarga aðra íbúa. „Íbúarnir óttast ekki að þangað sé að fara að flytja fólk með geðraskanir. Það er í fínu lagi. Það hefur meiri áhyggjur af þessum mögulega fíknivanda.“
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar segjast ekki hafa fengið skýr svör frá Reykjavíkurborg um hvort einstaklingar með fíknivanda verði hýstir í Hagaseli. Egill Þór segir íbúa ekki hafa fengið að segja sitt. „Ég sagði það, á lokuðum fundi í febrúar þegar þetta var á dagskrá, að í ljósi alls þess sem gerst hefur á þessu litla svæði, að það verði talað við íbúana áður en þetta verði keyrt í gegn. Það var bara hlegið að því, sem er lýsandi fyrir sýndarsamráð borgarinnar.“