„Auðvitað getur enginn tekið sér lögregluvald sem ekki hefur lögregluvald,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar og starfandi dómsmálaráðherra, um framgöngu tveggja manna á fundi Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi um þriðja orkupakkann á laugardagskvöld þegar tveir hælisleitendur stóðu upp og kröfðu Þórdísi um svör vegna stöðu hælisleitenda á Íslandi.
Þegar hælisleitendurnir báru upp erindi sitt stóðu tveir óeinkennisklæddir menn upp, gripu í hælisleitendurna og sögðu: „We are the police,“ eða „við erum lögreglan“. Mennirnir settust að lokum niður og héldu fundarhöld áfram með eðlilegum hætti þar til yfir lauk.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og fundarstjóri, sagði á fundinum að ekki væri þörf á að hringja í lögregluna en hann benti á mennina tvo og sagði að þeir væru lögreglan. Hann sagði í kjölfar fundarins að mennirnir væru fyrrverandi lögregluþjónar og það hefði hann gleymt að taka fram í hita leiksins.
„Þarna komu upp aðstæður sem komu öllum í opna skjöldu. Við vorum búin að eiga góðan fund og það þurfti einhvern veginn að halda stjórn á fundinum,“ sagði Þórdís Kolbrún í Silfrinu í gærmorgun.
„Þetta var óþægilegt og lögreglan var á staðnum þótt hún hafi ekki verið inni. Það langar engan að fá einhvern veginn lögreglumenn í búningum og grípa til aðgerða á einhverjum fundi,“ segir hún og bætir við að það sé þó ekki rétt að menn sem hafi ekki lögregluvald taki sér það.
„Auðvitað getur enginn tekið sér slíkt vald.“
