Matvælastofnun gerði einnig alvarlega athugasemd við að eingöngu graflax hafi verið innkallaður þegar bakterían hafði líka fundist í reyktum laxi og bleikju.
Listeríusýking hjá Ópal sjávarfangi hefur verið til umfjöllunar eftir að embætti Landlæknis greindi frá því að 48 ára kona með undirliggjandi ónæmisbælingu lést eftir að hún borðaði sýktan lax frá fyrirtækinu.

Of fáar sýnatökur
Fréttastofa hefur fimm skoðunarskýrslur Matvælastofnunar vegna málsins undir höndum. Þar kemur fram að listería hafi greinst í gröfnum laxi, reyktum laxi og bleikju. Einnig hafi bakterían fundist víða í vinnslu fyrirtækisins.Matvælastofnun gerði athugasemdir við að sýni væru tekin úr afurðum vegna greiningar listeríu tvisvar sinnum á ári. Samkvæmt leiðbeiningum stofnunarinnar á að taka sýni úr gröfnum og reyktum laxi sex sinnum á ári.
Alvarleg athugasemd var gerð við að Ópal sjávarfang hafi innkallað vörur sínar tveimur dögum eftir að Matvælastofnun staðfesti listeríusmit hjá fyrirtækinu.

Unnið með Matvælastofnun
Fyrirtækið hefur brugðist við þessum fréttum með yfirlýsingu þar sem kemur fram að um leið og niðurstöður úr ræktun sýna hafi legið fyrir hafi graflax verið innkallaður.Varðandi gagnrýni Matvælastofnunar um að graflax hafi eingöngu verið innkallaður þegar fyrir lá að reyktur lax og bleikja hafi líka verið sýkt af listeríu segir í yfirlýsingunni að innköllun á öllum vörum hafi verið langt umfram það sem ætlast hafi verið til á þeim tímapunkti.
Sú ákvörðun hafi verið stór fyrir ekki stærra fyrirtæki. Stjórnendur hafi viljað taka af allan vafa strax frá upphafi og tryggja hag almennings.