Elsta atvinnumannalið fótboltaheimsins, Notts County, féll í gær úr ensku deildarkeppninni í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir tap gegn Swindon Town.
Notts County var stofnað árið 1862 og var eitt af stofnendum deildarkeppninnar á Englandi. County spilaði í D-deildinni í vetur og hefur tímabilið verið þeim erfitt, þrír mismunandi stjórar og fjárhagsvandræði utan vallar.
Þeir þurftu á sigri að halda gegn Swindon og vona að Macclesfield Town tapaði sínum leik til þess að halda sér uppi, en Notts tapaði og Macclesfield gerði jafntefli við Cambridge United.
Í fyrsta skipti í 157 ára sögu félagsins mun það því spila í utandeildinni á næsta tímabili. Notts County er eitt af aðeins 10 félögum sem hafa tekið þátt í deildarkeppninni á Englandi hvert einasta tímabil síðan hún var stofnuð árið 1888. Næsta vetur verða þau níu.
