Fjallahringurinn í Fljótshlíðinni skartaði sínu fegursta í dag. Þetta er umgjörðin sem Gunnar á Hlíðarenda fórnaði sínu lífi fyrir í Njálssögu, svo fögur þótti honum hlíðin.
En á jörðinni Bollakoti var bóndi kominn út á túnin á traktornum með heyþyrluna í eftirdragi að snúa, hann var búinn að slá tólf hektara.

Við höfum einnig frétt af því að í Gunnbjarnarholti í Gnúpverjahreppi hafi bændur einnig slegið á laugardag en þeir virðast hafa verið fyrstir í ár, ásamt Þóri Ólafssyni í Bollakoti, sem segir grasið gríðarleg gott, - það sé af nýrækt frá því í fyrra.
„Við slógum á laugardagskvöld, byrjuðum þá. Laugardagur til lukku,“ segir Þórir.
Og viðbrigðin hjá Sunnlendingum eru mikil frá síðasta sumri.
„Við eigum þetta inni núna, eftir það sem skeði í fyrrasumar, - að geta byrjað snemma.“
-Hefurðu nokkurn tímann kannski byrjað svona snemma?
„Nei, nei, alls ekki. Enda ekki búinn að búa lengi.“

„Það er ótrúlegt í rauninni. Enda gríðarlega hagstæð skilyrði í rauninni í vor og hingað til. Mjög hlýtt og gott."
Sonurinn Ármann fékk að sitja í hjá pabba sínum en Þórir og Sigríður Þyrí kona hans reka stórt kúabú í Bollakoti ásamt foreldrum hans.
-Það voru nú einhverjir búnir að spá öðru rigningarsumri sunnanlands. En sumarbyrjunin er nú ekkert svo slæm núna?
„Nei. En þá verður maður líka að nýta hvern einasta sólardag, því maður býst alltaf við rigningu,“ svarar Þórir og hlær.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: