Jóhann M. Ólafsson, forstjóri og stofnandi Viðskiptahússins hefur verið ráðinn nýr forstjóri Íslenskra verðbréfa. Hann tekur við af Jóni Helga Péturssyni sem verður aðstoðarforstjóri.
Á vef Íslenskra verðbréfa segir jafnframt að nýtt skipurit hafi verið samþykkt fyrir félagið og verða tekjusviðin fjögur; eignastýring, miðlun, sérhæfðar fjárfestingar og fyrirtækjaráðgjöf.
Þessar hræringar tengjast kaupum Íslenskra verðbréfa á Viðskiptahúsinu, sem fyrst var greint frá undir lok síðasta árs. Öll skilyrði fyrir kaupunum eru nú uppfyllt og segjast Íslensk verðbréf hafa gengið frá viðskiptunum í samræmi við kaupsamning sem gerður var í desember síðastliðinn.
Kaupin eru sögð ná til allra félaga innan samstæðu Viðskiptahússins sem sinna ráðgjöf og þjónustu, einkum í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Íslensk verðbréf er eignastýringafyrirtæki með höfuðstöðvar á Akureyri og 18 starfsmenn. Viðskiptahúsið hefur frá árinu 1999 sérhæft sig í ráðgjöf til fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Starfsstöð Viðskiptahússins er í Kópavogi og eru starfsmenn átta talsins.
Haft er eftir Sigurði Atla Jónssyni, stjórnarformanni Íslenskra verðbréfa, að markmiðið með kaupunum sé að skapa sérhæft fjármálafyrirtæki í eignastýringu, miðlun og ráðgjöf með sérstöðu í staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins og atvinnulífssérhæfingu. „Kaupin hafa í för með sér góðan ávinning fyrir landsbyggðirnar, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa,“ segir Sigurður Atli.
