Í fréttatilkynningu Australian Koala Foundation (AKF) greinir frá því að stærð kóalabjarnastofnsins í Ástralíu sé orðin svo takmörkuð að stofnunin sjái nú fram á algjöra útrýmingu dýrategundarinnar.
AKF hefur fylgst með 128 sýslum í Ástralíu síðan 2010 og segja það vera áfall að í 41 sýslu af þessum 128 sé nú enga kóalabirni að finna.
„AKF telur að fjöldi kóalabjarna í Ástralíu sé ekki meiri en 80.000, sem er um eitt prósent af þeim átta milljón sem veiddir voru fyrir feld sinn og sendir til London á árunum 1890 til 1927,“ segir Deborah Tabart, framkvæmdastjóri AKF.
Í bréfum til Scotts Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, og leiðtoga stjórnarandstöðunnar segir AKF örlög kóalabjarnanna vera í þeirra höndum, en AKF hefur ekki fengið svar samkvæmt áðurnefndri fréttatilkynningu. Tabart er gagnrýnin á núgildandi löggjöf um kóalabirnina og segir viðurstyggilegasta hluta hennar vera þá staðreynd að fyrirtækjum á svæðinu sé gefið leyfi til þess að taka – sem Tabart segir vera fegrunarheiti á að drepa – kóalabirni úr trjám sem á að höggva.
Tabart skorar á forsætisráðherra Ástralíu að samþykkja nýtt lagafrumvarp sem kallast Koala Protection Act, frumvarp sem mun vernda bæði birnina og skógana sem þeir lifa í. Frumvarpið er byggt á svipaðri löggjöf í Bandaríkjunum um verndun skallaarnarins.
Ljóst er að án tafarlausra aðgerða sér AKF fram á yfirvofandi útrýmingu kóalabjarnanna. „Einkennisdýr áströlsku ferðaþjónustunnar er að deyja út og nei, dýragarðar eru ekki lausnin. Lausnin er að bjarga búsvæði þeirra.“
