Hann notaði tækifærið og þakkaði starfsfólki Alþingis að hafa þurft að vaka yfir ræðuhöldum þingmannanna. „Sérstaklega fáliðaðari þingskrifstofu sem hefur þurft að leggja mikið á sig til að þetta fundahald mætti fara hér fram. En hér hefur nú staðið fundur í rúmar 19 klukkustundir.“
Umræða hefur þannig staðið í alla nótt. Þar hafa Miðflokksmenn staðið í pontu mörgum til mikillar mæðu. Einn þeirra er Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar sem skrifaði í morgun á Facebooksíðu sína að málþóf sé fjandsamleg yfirtaka á Alþingi, framkvæmd með því að toga og teygja venjur og reglur. Leið til að láta þingræðið ekki hafa sinn gang.
„Menn koma upp í ræðustól og tala en ofmælt er að kalla það ræður sem þar er flutt - miklu frekar nokkurs konar óræður. Óræða eftir óræða dynur á okkur og andsvörum er breytt í meðsvör blygðunarlaust. Þetta sýnir mikið virðingarleysi fyrir ræðustólnum og stofnuninni. Málþóf getur verið neyðarréttur minnihluta þegar meirihluti keyrir í gegn ólög en Miðflokkurinn lítur á það sem íþróttakeppni, leið til að sýna styrk og getu til að beita ofríki,“ segir Guðmundur Andri.