Ráðist var á tvö flutningaskip með einhvers konar sprengjum í Ómanflóa í gær. Bandarísk stjórnvöld kenna Írönum um árásirnar og lögðu fram myndbandið í dag. Halda þau því fram að tundurdufl sem fest er á með segli hafi verið notað í árásunum. Írönsk stjórnvöld hafna því alfarið.
Yutaka Katada, forseti Kokuka Sangyo sem á annað flutningaskipið, segir að filippseysk áhöfn skipsins hafi séð einhvers konar flugskeyti stefna á skipið, ekki tundurdufl.
„Þeir segja að eitthvað hafi flogið í áttina að þeim, svo varð sprenging, síðan var gat á skipinu,“ sagði Katada við fréttamenn, að sögn Washington Post. Skipverjarnir hafi séð annað skeyti í kjölfarið.
Katada telur að verksummerkin á skipinu bendi frekar til þess að það hafi orðið fyrir skeyti en að sprengja hafi sprungið á því. Þegar seinni sprengingin varð ákvað skipstjórinn að láta áhöfnina yfirgefa skipið. Áhöfnin hafi séð íransk herskip í grenndinni.
Þörf á óháðri rannsókn á árásunum
Árásirnar hafa aukið enn á spennuna á milli bandarískra og íranskra stjórnvalda sem hefur stigmagnast undanfarnar vikur og mánuði. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði í dag eftir óháðri rannsókn á árásunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.„Það er afar mikilvægt að komast að sannleikanum og það er afar mikilvægt að ábyrgðin komist á hreint. Augljóslega er aðeins hægt að gera það ef það er sjálfstæð eining sem staðreyndir þær staðreyndir,“ sagði Guterres.
Aðeins öryggisráðið gæti skipað fyrir um slíka rannsókna á vegum Sameinuðu þjóðanna.