Lilja Georgsdóttir á jörðina Brekkukot ásamt eiginmanni sínum, Þórhalli Birgissyni. Í samtali við Vísi segir hún girðinguna vekja mikla lukku en vinsældir hennar eru orðnar svo miklar að girðingin er við það að sligast undan álaginu.
Sjá einnig: Skylda að skilja eftir brjóstahaldara í Brekkukoti
Brjóstahaldararnir setja skemmtilegan svip á girðinguna en undanfarið hafa bæst við allskyns aðrar flíkur, til að mynda vettlingar, sokkar, skór og nærbuxur. Þó þau hjónin fagni vinsældum girðingarinnar segja þau nærbuxurnar ekki ákjósanlegustu flíkurnar á girðingunni.

Hún segir vinsældir girðingarinnar hafa kveikt þá hugmynd af koma upp einhverskonar söfnunarkassa svo þeir sem leggja leið sína að girðingunni gætu þá gefið fjárframlög sem myndu öll renna til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Það sé á planinu að koma því í framkvæmd.

Búið að bætast mikið í undanfarið
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að júnímánuður bauð upp á sól og sumar og því margir landsmenn sem lögðu land undir fót. Það séu bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn sem staldra við nærri Brekkukoti á degi hverjum.
Hún segir fjöldann vera orðin svo mikinn að það kalli á smá tiltekt á girðingunni. Margir haldararnir hafa hangið þarna í einhver ár, líklega orðnir veðurbarðir og muna fífil sinn fegurri. Því sé tilvalið að grisja aðeins til og búa til pláss fyrir aðra haldara sem vilja njóta sín á girðingunni við Brekkukot.