Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í Louisiana-ríki þar sem styttist í að stormur komi að landi.
Stormurinn, sem hefur verið nefndur Barry, nálgast nú ríkið á nokkrum hraða en hann er nú á Mexíkóflóa. Hraði stormsins hefur aukist undanfarna daga.
Yfirvöld í Bandaríkjunum segja vindhraðann vera kominn upp í um 22 metra á sekúndu og að hraðinn gæti aukist þannig að Barry komi til með að flokkast sem fellibylur þegar hann nær landi.
Gert er ráð fyrir mikilli úrkomu og hvössum vindhviðum í New Orleans, höfuðborg Louisiana, en síðustu daga hefur flóða gætt í borginni. Auk þess hafa þrumur og eldingar verið viðvarandi.
Veðurstofa Bandaríkjanna segir flóðin sem fylgja veðurofsanum vera það sem varast þurfi hvað mest og varað er við úrkomu á bilinu 25 til 50 sentimetrar. Það bætist ofan á þá staðreynd að Mississippifljót, vatnsmesta fljót Bandaríkjanna, er nálægt því að flæða yfir bakka sína.
Það að forsetinn hafi lýst yfir neyðarástandi á svæðinu opnar fyrir möguleika á því að nota ýmiskonar úrræði, til þess að fyrirbyggja tjón á fólki og öðru, sem annars eru ekki á valdi einstakra ríkja.
