Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá viðskiptaráðinu. Fréttastofa hefur greint frá því að Momo hafi verið synjað um áframhaldandi dvalarleyfi og atvinnuleyfi en hún hefur búið hér í fjögur ár.
Vinnuveitandi hennar sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að leiðbeiningar Vinnumálastofnunar hafi verið misvísandi og óskýrt hvaða gögn þyrftu að liggja að baki umsóknar um atvinnuleyfi.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði einnig í fréttum Bylgjunnar að leiðbeiningaskyldu stjórnvalda sé rík og brot á skyldunni geti varðað ógildingu.

Henni hefur verið synjað um áframhaldandi dvalarleyfi, ferðaþjónustufyrirtækinu sem hún starfar hjá neitað um atvinnuleyfi henni til handa, vísað á að auglýsa starfið á Evrópska efnahagssvæðinu, og Momo gert að yfirgefa landið innan 30 daga. Ekki er viðurkennt að Momo hafi neina sérþekkingu, sem ekki sé hægt að uppfylla af einhverjum á íslenskum eða evrópskum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingu Íslenska viðskiptaráðsins í Japan.
Þar segir að þetta sé furðuleg afstaða af hálfu stjórnvalda:
„Íslendingar sem óska eftir að starfa eða stofna fyrirtæki í Japan eiga þangað greiða leið og ekki bara það, heldur hafa japönsk stjórnvöld og einstaklingar (t.d. Watanabe og Sasakawa) í áratugi, stutt íslenska námsmenn rausnarlega í gegnum sjóði og stofnanir, m.a. í þeim tilgangi að þeir í framhaldinu leggi japönsku atvinnulífi lið.
Japan er næst stærsta viðskiptaríki Íslands utan Evrópu, japönskum ferðamönnum sem koma til Íslands fer fjölgandi og tengslin milli landanna styrkjast ár frá ári. Má þar nefna nýlegan tvísköttunarsamning, samning sem heimilar ungu fólki að vinna í tiltekinn tíma í löndunum („Working holiday agreement“) og undirbúningur fyrir mögulegar viðræður um fríverslunarsamning og samning um flugleyfi er hafinn.
Rifja má upp að Japan var fyrsta landið innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem studdi Ísland eftir bankahrunið 2008.
Íslensk stjórnvöld ættu því að kappkosta að Japanir séu jafn velkomnir til Íslands og Íslendingar til Japans. Ef breyta þarf reglum eða vinnulagi eiga þau að hlutast til um slíkt.“