Ondrej Šmakal, forstjóri Kredia Group, segir að frá því í maí síðastliðnum hafi vextir Hraðpeninga, Múla, 1919, Smálána og Kredia lækkað niður í 53,75 prósent, sem er það hæsta sem lög leyfa.
„Ef þú tekur 20 þúsund króna lán hjá okkur þá þarftu að borga 20.719 krónur ef þú borgar innan mánaðar. Við berum virðingu fyrir hámarksgjöldum á Íslandi,“ segir Ondrej.

„Það var að kröfu Almennrar innheimtu að þessum lánum var breytt og við höfum útvegað allar sundurliðanir sem við höfum getað og verið beðin um.“
Öllum lánum hafi verið breytt þannig að þau fari ekki yfir hámark árlegs hlutfallskostnaðar.
„Ef það er einhver með eldri kröfu í innheimtu þá óska ég eftir að viðkomandi leiti til okkar. Við viljum aðeins innheimta kröfur sem eru í samræmi við íslensk lög.“
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir það jákvætt að smálánin heyri sögunni til.
„Ef það er raunverulega svo að Almenn innheimta er loksins að hætta innheimtu á ólögmætu smálánunum þá auðvitað fögnum við því, enda tími til kominn, og við væntum þess að ólögmætar kröfur verði látnar niður falla,“ segir Brynhildur.
Meira en helmingur þeirra sem leituðu til Umboðsmanns skuldara í fyrra höfðu tekið smálán.