Greint var frá því í gær að slökkva hefði þurft á kerskála þrjú í álverinu í Straumsvík í gær. Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi tjáði Vísi í gær að það hefði verið gert vegna óróleika í rekstri skálans sem rakinn er til þess að annað súrál hafi verið notað en venjulega. Lokunin hafi átt að tryggja öryggi starfsmanna.
Mbl hafði svo eftir heimildum sínum í gær að svokallaður ljósbogi hefði myndast í kerskálanum. Bjarni Már hefur hingað til ekki viljað tjá sig um ljósbogann við fjölmiðla.
Hefur ekki komið á vettvang
Reinhold Richter trúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík segir í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi rætt við samstarfsmenn sína og sé að reyna að afla upplýsinga um málið.
Ljósbogi myndaðist við skammhlaup í álverinu í Straumsvík í júní árið 2001, í sama kerskála og slökkt var á í gær. Þá brenndust tveir menn alvarlega við gangsetningu á rafgreiningarkerfi. Annar þeirra lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar.
Þetta er í annað sinn sem kerskála er lokað í álverinu en það gerðist síðast árið 2006 þegar rafmagn fór af kerskála þrjú. Þá var tjónið metið á fjórða milljarða og tók mánuði að koma allri starfsemi aftur í gang. Um þriðjungur álframleiðslu álversins fer fram í skála þrjú.
Árið 2015, þegar verkfall starfsmanna álversins var yfirvofandi, sögðu stjórnendur álversins að slökkva yrði á kerskála í verksmiðjunni, kæmi til verkfalla. Var haft eftir þeim í Fréttablaðinu að yrði slökkt á kerskálanum jafngilti það lokun fyrirtækisins.