Forsætisnefnd Alþingis hefur komist að niðurstöðu um álit siðanefndar vegna Klausturmálsins. Vinnu þeirra Haraldar Benediktssonar og Steinunnar Þóru Árnadóttur, sem skipuð voru tímabundið í forsætisnefnd til að fjalla um málið, er þó ekki lokið. Á fundi sínum í dag fóru þau yfir innsendar athugasemdir þeirra þingmanna Miðflokksins sem í hlut eiga.
Þau munu funda aftur síðar í vikunni, en í samtali við fréttastofu binda þau vonir við að hægt verði að gera álit siðanefndar opinbert fyrir helgi. Þingmönnum Miðflokksins sem í hlut eiga verður kynnt niðurstaðan áður en hún verður gerð opinber.
Þau segja þorra þeirrar vinnu sem eftir er við álitið snúast að uppsetningu og orðalagi.
Niðurstaða forsætisnefndar mun ekki hafa neinar bindandi afleiðingar. Þannig hefur hún engin áhrif á þingsetu þeirra sex þingmanna sem eiga í hlut, en þjónar heldur tilgangi sínum sem ákveðinn leiðarvísir um hvað telst óæskileg hegðun þingmanna. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er eini þingmaðurinn sem hingað til hefur gerst brotleg við siðareglur þingsins með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson og endurgreiðslur sem hann naut frá Alþingi á grundvelli skráninga í akstursdagbók hans.
Eins og áður segir mun þeim sex þingmönnum Miðflokksins sem eiga í hlut, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Gunnari Braga Sveinssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Ólafi Ísleifssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bergþóri Ólasyni vera gert ljóst um niðurstöðu nefndarinnar áður en hún verður gerð opinbert. Stefnt er að því að niðurstaða forsætisnefndar verði gerð opinber fyrir helgi.
Forsætisnefnd komin að niðurstöðu í Klaustursmálinu

Tengdar fréttir

Siðanefnd skilar áliti um Klausturmálið til forsætisnefndar
Siðanefnd Alþingis hefur skilað áliti sínu um Klausturmálið til forsætisnefndar. Þingmennirnir sex sem fram komu á upptökunni frest út vikuna til að bregðast við álitinu og mun forsætisnefnd taka málið fyrir í næstu viku.

Miðflokksmenn skiluðu inn andsvörum
Varaforsetar Alþingis taka nú málið fyrir.