Skoðun

Að flytja lambakjöt yfir hálfan hnöttinn

Guðni Ágústsson skrifar
Einstök auðlind er matarkista Íslands til sjávar og sveita. Nú berast fregnir af því að verið sé að flytja lambahryggi yfir hálfan hnöttinn, 17.197 km frá Nýja-Sjálandi til Íslands – vá, kolefnissporið. Af einhverjum ástæðum hefur mönnum tekist að kjafta upp skortstöðu sem er ekki rétt. Lambakjötið okkar er einstök vara sem við berum á borð fyrir gesti okkar með stolti.

Þessi staða sem nú er uppkomin er einstök og alvarleg að því leyti að sauðfjárbændur búa við önnur og verri lífskjör en flestar aðrar stéttir og þarf lítið til að sparka undan þeim löppunum og hrun gæti blasað við í framleiðslu á lambakjöti og byggðunum. Nú hefur einstakt sólarsumar ríkt og saman fer sól og að grilla lamb þannig að söluaukning er mikil í lambakjöti og framtíðin var farin að brosa við bændum á ný.

Meðan laun hafa hækkað hefur afurðaverð lækkað eða staðið í stað til þeirra í nokkur ár. Þá skellur reiðarslagið yfir að hafinn er innflutningur og enn meiri í kortunum ef landbúnaðarráðherra slær ekki í borðið og segir að auðvitað fullnægi íslenskir sauðfjárbændur sínum aðdáendum neytendunum og erlendum gestum, deila á milli sín hryggjum í afurðastöðvunum og hefja innan nokkurra daga sumarslátrun. Nýtt lambakjöt með nýjum kartöflum og íslensku grænmeti fyllir diskinn minn og þinn.

Neytendur vilja alls ekki að svona átök eigi sér stað, þeir standa með sauðfjárbændum, þekki ég þá rétt. Þeir virða þrautseigju bændanna og varðstöðu þeirra í matvælaöryggi landsins og að auki að mati okkar allra ein öruggustu matvæli í veröldinni. Við þurfum ekki í dauðlegum heimi að flytja lambakjöt yfir hálfan hnöttinn, guð forði okkur frá slíkri glópsku.

Ég skora á landbúnaðarráðherra að hefja smölun sumarlamba með bændunum í kjördæmi sínu, þar liggur hans stærsta skylda og tækifæri sem landbúnaðarráðherra sem falin var varðstaða með landbúnaði landsins í ríkisstjórninni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×