„Það er alveg rétt að það er of löng bið eftir tíma hjá heilsugæslulækni og við erum að vinna í því að stytta þennan biðtíma, bæði með að veita einstaklingum önnur úrræði fljótt og minnka þar með þörfina á tíma hjá þínum heimilislækni,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.
„Í grunninn er vandinn hins vegar sá að það eru ekki nægilega margir heimilislæknar og einnig erum við í húsnæði sem torveldar störf okkar.“

Heilsugæslan hefur verið skilgreind af hinu opinbera sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Svandís Svavarsdóttir hefur sagt að til þess að heilsugæslan geti staðið undir því hlutverki þurfi að efla hana og styrkja en það sé eitt meginmarkmið þeirrar ríkisstjórnar sem nú sitji við völd.
Jón Helgi segir að heimilislæknum muni fjölga á næstu árum.
„Við þurfum að mennta fleiri í heimilislækningum og við teljum að það horfi til betri vegar. Til að mynda erum við núna með sjö nema í heimilislækningum hjá okkur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Með nýju húsnæði verður einnig til betri vinnuaðstaða fyrir heimilislækna sem verður vonandi til þess að auðvelt verði að manna heilsugæsluna,“ bætir Jón Helgi við.